Í frétt á vef Síldarvinnslunnar í morgun er haft eftir Geir Zoëga, skipstjóra grænlenska uppsjávarskipsins Polar Amaroq, að skipverjar hafi komið í „svakalega torfu“ í Jökuldýpi sunnan Snæfellsjökuls.
„Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn. Við erum nú að mæla þessa risalóðningu og síðan ætlum við að svipast frekar,“ sagði Geir skipstjóri á vef SVN en Hafrannsóknastofnun fól áhöfninni á Polar Amaroq að mæla loðnugönguna.

Rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, sem er í árlegum vetrarleiðangri að kanna ástand sjávar, var jafnframt snúið í átt til Grímseyjar og Skjálfanda til að kanna loðnugöngur þar. Hér má sjá feril skipsins.
Að sögn forstjóra Hafrannsóknastofnunar er gangan í Faxaflóa komin að hrygningu. Hún er ekki talin ný loðnuganga að vestan eða norðan heldur hluti af þeirri göngu sem búin er að fara niður með Austfjörðum og vestur með suðurströndinni og áður var búið að mæla. Sömuleiðis séu göngurnar fyrir norðan land ekki taldar vera viðbót við það magn sem áður hafði mælst, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum.