Þetta kom fram í máli Jóns Viðars í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir fleira en bara snarpa jarðskjálfta eða eldgos geta orðið tilefni til rýminga.
„Það er náttúrulega bara bæði, og getur verið margt, margt annað. Það getur verið bruni, eiturefnaslys, það getur verið margt sem getur komið upp á sem krefst þess að þurfi að flytja fólk á milli svæða,“ segir Jón Viðar.
Hann segir þá líklegt að grípa þyrfti til þess ráðs að opna fjöldahjálparstöðvar, jafnvel fyrir höfuðborgarsvæðið allt.
„Fólk kannski leitar þangað. Ef það fær einhverja viðvörun getur það þess vegna leitað þangað snemma og ef það er að leita þangað eftir að atburðurinn er búinn að eiga sér stað þurfum við að treysta á það að fólk komi þangað eða fylgist mjög vel með fjölmiðlum, því þaðan koma upplýsingarnar. Það er ekki gott að fólk ani af stað, það þarf að vita hvert á að fara,“ segir Jón Viðar.
Hann segir þá að ekki sé gert ráð fyrir að allt höfuðborgarsvæðið yrði undir í einu.
„Þannig að við flytjum þá fólk á milli svæða, og þetta þarf að gera mjög skipulega.“