Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum segir í samtali við fréttastofu að það hafi vissulega ekki farið fram hjá nokkrum einasta manni að mikil skjálftavirkni sé á svæðinu.
„Við finnum mikið fyrir þessu hér þegar skjálftarnir koma. Að því sögðu finnst mér staðan vera í jafnvægi, ef maður getur notað það orð. Það er erfitt að búa við þetta að því leytinu til að það er alltaf léleg öryggistilfinning þegar þetta gengur yfir en við erum upp til hópa með fólk sem tekur þessu af æðruleysi og tekur þessu með raunsæissjónarmiði,“ segir Ásgeir.
„Þetta er misjafnt eftir því hve jarðskjálftarnir eru stórir og þetta er alltaf jafnóþægilegt. Manni bregður yfirleitt við þegar þeir koma en að því sögðu reynir maður bara að treysta vísindasamfélaginu fyrir því að þetta sé ekkert meira en þetta.“
Veit ekki af neinum sem hefur forðað sér
Veistu til þess að fólk hafi gripið til viðbragða, pakkað í töskur eða hreinlega farið úr bænum?
„Ég veit ekki um neinn sem hefur forðað sér,“ segir Ásgeir. „En ég veit um einhverja sem hafa haft tilbúnar töskur, kannski aðallega lyf og slíkt sem fólk er háð, sem er bara jákvætt og eðlilegt. Aðalatriðið og mikilvægast er að kynna sér vel leiðbeiningar frá almannavörnum um viðbrögð, bæði varðandi það ef þarf að rýma svæðið og varðandi lausa muni og slíkt.“
Hefði gjarnan viljað sjá rýmingaráætlunina miklu fyrr
Rýmingaráætlun fyrir Grindavík er tilbúin en slík áætlun er enn í vinnslu fyrir restina af Suðurnesjum.
„Okkar [rýmingaráætlun] er ekki tilbúin en hér eru hins vegar greiðar leiðir, flóttaleiðir til margra átta og greiðar samgöngur og á meðan ekki eru eldsumbrot er engin hætta á ferðum hvað það varðar,“ segir Ásgeir.
En er ekki fullseint í rassinn gripið að fara að vinna að rýmingaráætlun núna þegar þessar jarðhræringar hafa staðið yfir í heilt ár?
„Við hefðum gjarnan viljað sjá þessa rýmingaráætlun miklu fyrr og höfum þrýst á það lengi. Þetta er auðvitað mikil vinna sem tekur langan tíma. Frumkvæðið og utanumhaldið er hjá lögreglu og almannavörnum, sveitarfélögin hafa öll hér á svæðinu þrýst á um þetta. Það er samt betra seint en aldrei og vonandi verður hún tilbúin fyrr en síðar,“ segir Ásgeir.