Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Varðhaldið rennur út næsta miðvikudag, 17. mars.
Fjórir eru nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þá hafa fimm verið úrskurðaðir í farbann. Lögregla segir í tilkynningu að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Fréttastofa greindi frá því í morgun að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði samþykkt kröfu lögreglu um að fella niður skipun Steinbergs Finnbogasonar sem verjanda Íslendings í málinu. Sá sætir farbanni vegna málsins.
Ástæðan fyrir því að lögreglan fer fram á þetta er sú að hún vill að Steinbergur verði kallaður til skýrslutöku. Ekki er hægt að sinna störfum verjanda og vera samtímis með réttarstöðu vitnis.