Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt sér skammta af bóluefninu fyrir 235 þúsund einstaklinga. Með þessu er bóluefnið það fjórða sem fær markaðsleyfi hér á landi en ekki liggur fyrir hvenær fyrsta sendinga Janssen er væntanleg til Íslands.
Ólíkt bóluefnum Pfizer/BioNTech, Moderna og AstraZeneca sem hafa nú þegar hlotið markaðsleyfi hér á landi dugir einn skammtur af efni Janssen til að veita fullnægjandi vernd gegn Covid-19.
Niðurstöður rannsókna leiddu í ljós að efnið virkar í 67 prósentum tilvika en helstu aukaverkanir þess eru eymsli á stungustað, höfuðverkur, þreyta, vöðvaverkir og ógleði.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði í samtali við fréttastofu á þriðjudag að hún teldi líklegt að fyrstu skammtar frá Janssen kæmu í fyrsta lagi í apríl. Þá hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gefið út að hún vænti þess að afhendingaráætlun Janssen verði tilbúin fljótlega eftir að efnið fái markaðsleyfi.