Þegar einn lögmanna Navalní ætlaði að hitta hann í fangelsi í Vladímír-héraði í dag var honum sagt að skjólstæðingur sinn hefði verið fluttur annað.
„Fangelsið sagði að hann væri ekki þar og ekkert meira,“ segir Vadim Kobzev, einn lögmanna Navalní, við Reuters-fréttastofuna. Navalní hafi verið við góða heilsu daginn áður þegar annar lögmaður heimsótti hann í fangelsið.
Fangelsismálastofnun Rússlands vildi ekki gefa upp hvar Navalní væri haldið og vísaði til persónuverndarsjónarmiða.
TASS-ríkisfréttastofan sagði frá því á sínum tíma að Navalní hefði verið fluttur úr fangelsi í Moskvu í annað fangelsið í Vladímír þar sem hann yrði í sóttkví í síðasta mánuði. Síðan stæði til að flytja hann í IK-2-fanganýlenduna sem einnig er í Vladímír-héraði.
Navalní var fangelsaður við komuna til Rússlands frá Þýskalandi í janúar. Hann hafði verið í Berlín um nokkurra mánaða skeið eftir að hann var fluttur þangað á sjúkrahús þegar eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í Rússlandi.
Rússnesk yfirvöld sökuðu Navalní um að hafa brotið gegn reynslulausn sem hann hlaut vegna annars fangelsisdóms með því að hafa ekki látið vita af sér á meðan hann lá í dái á sjúkrahúsi í Þýskalandi. Navalní sakar Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa látið eitra fyrir sér en stjórnvöld í Kreml neita því.
Vestræn ríki telja fangelsun Navalní nú eiga sér pólitískar rætur og hafa krafist þess að hann verði látinn laus. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa lagt refsiaðgerðir á Rússa vegna þess.
Fjöldi andstæðinga Pútín Rússlandsforseta, andófsfólks og blaðamanna hefur verið myrtur, fangelsaður eða látist við grunsamlegar aðstæður á undanförnum árum og áratugum.