Á aðalfundi Félags Kúabænda á Suðurlandi þann 25. febrúar síðastliðinn veitti Búnaðarsamband Suðurlands verðlaun fyrir afurðahæsta kúabúið á Suðurlandi fyrir árið 2020, sem var hjá þeim Fanneyju Ólafsdóttur og Reyni Þór Jónssyni á Hurðarbaki í Flóahreppi.
Þar sem aðalfundurinn var í fjarfundi var ekki hægt að veita verðlaunin þar en þau voru hins vegar afhent í gær á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands á Selfossi af Sveini Sigurmundssyni, framkvæmdastjóra sambandsins. Einnig voru veitt verðlaun fyrir afurðahæstu kúna á Suðurlandi 2020, sem var Ösp frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi hjá Fjólu Ingveldi Kjartansdóttur og Sigurði Ágústssyni, en hún mjólkaði 14.062 lítra.
Þetta er annað árið í röð, sem Hurðarbaksbúið er afurðahæsta búið á Suðurlandi.
„Það er bara gaman þegar vel gengur og gaman að fá verðlaun þegar gengur vel. Við erum bara alsæl. Það er bara búið að ganga vel hjá okkur en það gengur líka mjög vel hjá mörgum öðrum en jú, það er búið að ganga vel undanfarin tvö ár,“ segir Fanney hógværð.
En hverju þakka þau þennan góða árangur?
„Það hefur allt gengið upp í heyverkun og öllu bara, heilbrigði og allt, það er bara það sem skiptir öllu til að ná árangri,“ segir Reynir.

Hvað er skemmtilegast við kúabúskapinn?
„Ég held að það sé bara hvað maður sér árangurinn vel af vinnunni, maður uppsker eins og maður sáir. Þannig að allt sem maður gerir skilar sér til baka svo greinilega, það finnst mér skemmtilegast. Svo finnst mér líka skemmtilegt með náttúruna, hvað náttúran spilar stórt hlutverk í þessu, það skiptir miklu máli veðurfar og annað . Það getur verið mikil áraskipti út af því og það er alltaf ákveðin spenna í því hvernig mun ganga, það fer eftir veðri og árferði hverju sinni,“ segir Fanney.
Reynir og Fanney eiga fimm börn, sem taka þátt í búrekstrinum á einn eða annan hátt með því en á búinu eru líka kindur og nokkur hross. Hjónin ætla að halda upp á verðlaunin með börnum sínum og svo er bara að ná því að verða líka afurðahæsta kúabúið á Suðurlandi 2021 og ná þannig verðlaununum heim á bæinn þriðja árið í röð.