Borgin Aten er nærri Lúxor en hún fannst skömmu eftir að uppgröftur hófst á svæðinu í september. Zahi Hawass, einn helsti sérfræðingur heims í sögu fornegypta, segir að þetta sé stærsta forna borgin sem hefur nokkru sinni fundist í Egyptalandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Aten er frá tíð Amenhotep þriðja, ein voldugasta faraós Egyptalands til forna, sem ríkti frá 1391 til 1353 fyrir krist. Það er talin gullöld Egyptaland til forna. Borgin var einnig notuð í tíð Tútankamons faraós, barnabarns Amenhotep, og Ay, arftaka hans.
Rústir borgarinnar við vesturbakka Nílafljóts eru sagðar vel varðveittar. Þar hafa fundist heillegir veggir, herbergi með tækjum og tólum, skartgripir, málaðir leirmunir, verndargripir og múrsteinar með innsigli faraósins.
Þegar er búið að grafa upp heilu hverfi borgarinnar með bakaríi, stjórnsýslubyggingum og íbúðarhúsum. Fornleifauppgröfturinn stendur enn yfir og býst Hawass við því að finna enn fleiri ómetanleg verðmæti.
Betsy Brian, prófessor í Forn-Egyptalandi við Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, segir BBC að eingöngu fundur grafhýsis Tútankamons árið 1922 standi uppgötvuninni á Aten framar. Borgin geti gefið fræðimönnum innsýn inn í hvernig Egyptar til forna höguðu lífi sínu þegar veldi þeirra stóð sem hæst.
