Í nýjasta þættinum af RAX Augnablik rifjar Ragnar Axelsson ljósmyndari upp ferð út á hafísinn árið 1995. Með honum var grænlenski veiðimaðurinn Hjelmer og notuðu þeir hundasleða til að komast leiðar sinnar. Þeir komu við í litlu þorpi og enduðu á að stoppa þar lengur en þeir ætluðu sér.
„Við lögðum svolítið seint af stað, það var fimbulkuldi alveg 25 eða 30 stiga frost.“
Enginn í standi til að hugsa um barnið
Þegar þeir fóru fram hjá húsi í þorpinu áður en þeir lögðu af stað út á ísinn þá heyrðu þeir sáran barnsgrátur.
„Við stoppum við Hjelmer það gerist ekki neitt og það heldur áfram að gráta og við bönkum á húsið en það kemur enginn til dyra. Við förum inn og þar er pínulítið barn í vöggu, hágrátandi, og foreldrarnir og afinn og amman voru ekki í standi til þess að hugsa um barnið.“
Fólkið sem átti að vera að hugsa um þetta litla barn hafði „fengið sér of mikið í tána,“ eins og RAX orðar það.
„Við frestum því að fara út og erum bara að rugga litlu barni alla nóttina.“
Frásögnina má heyra í heild sinni í þættinum Litli Bent og lífið í Kap Hope, hér fyrir neðan. Þar segir hann frá ferðinni út á ísinn og veiðimanninum Litla Bent sem hann kynntist fyrst í þessum leiðangri.
Ragnar Axelsson hefur áður sagt frá Grænlandsævintýrum í þáttunum RAX Augnablik. Í þættinum Í krumlum hafíssins er sagt frá annarri ævintýraferð vinanna RAX og Hjelmer.
Í þættinum Á borgarísjaka sagði hann söguna á bak við við stórkostlegar myndir sem hann tók af tveimur mönnum á ísjaka við Grænland. Hann viðurkennir að uppátækið sé ekki til eftirbreytni en myndirnar eru í persónulegu uppáhaldi hjá honum.
Árið 1997 ferðaðist RAX um Austurströnd Grænlands og myndaði þar náttúruna, dýrin og mannlífið. Á Grænlandi myndaði hann meðal annars Hale-Bopp halastjörnuna frægu. RAX var svo að mynda í litlu þorpi ásamt vini sínum þegar þeir komust í hann krappan um miðja nótt. Hann sagði frá því ævintýri í þættinum Af draugum og halastjörnum.
Ljósmyndarinn heimsótti Thule, sem var nyrsta byggð í heimi, árið 1987. Þar fylgdist hann með veiðimönnum úti á ísnum við Grænland í fyrsta skipti, meðal annars manninum sem kallaður var kóngurinn í Thule. Hann viðurkennir að hafa verið hræddur að mynda hann í byrjun.
Í þættinum Ole og Querndu segir RAX frá einstaka sambandinu sem myndast á milli veiðimanna og veiðihunda á Grænlandi. Hjartnæm saga sem gefur innsýn inn í lífið þar.