Frumvarp þess efnis voru samþykkt á Alþingi í gær en í þeim er einnig kveðið á um tvöföldun á því hlutfalli sem atvinnurekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna framlaga til slíkrar starfsemi. Fer framlagið úr 0,75% í 1,5% og við það bætist að frádráttarheimild atvinnurekenda vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfaldast og hækkar í 1,5%. Alls geta atvinnurekendur því fengið frádrátt sem nemur 3% á ári vegna framlaga sinna.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að samkvæmt lögunum beri þeim sem styrkja góðgerðastarfsemi, eða almannaheillastarfsemi eins og það er nefnt í frumvarpinu, að fá móttökukvittun. Þá sendir móttakandi Skattinum upplýsingar um gjafir eða framlög frá einstaklingum sem eru í kjölfarið forskráðar á skattframtal þeirra.
Þarf móttakandi að vera skráður í sérstaka almannaheillaskrá Skattsins þegar gjöfin eða framlagið er veitt. Gert er ráð fyrir að lagabreytingin muni minnka skatttekjur ríkissjóðs um tvo milljarða króna á ári.
Undanþegin greiðslu tekjuskatts
Með samþykkt umrædds frumvarps Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, voru einnig færðar í lög undanþágur frá greiðslu skatta fyrir félög til almannaheila. Til að mynda verða slík félög undanþegin greiðslu tekjuskatts, staðgreiðsluskatts af fjármagnstekjum og stimpilgjalda auk þess að vera undanþegin greiðslu virðisaukaskatts með ákveðnum skilyrðum.
Geta félögin sótt um endurgreiðslu allt að 60% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra.
Í lögunum er þar að auki veitt undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.