Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, skipaði í dag hluta hersveitanna, sem staðsettar eru við landamærin að Úkraínu, að fara þaðan. Evrópusambandið telur að um 100 þúsund rússneskir hermenn hafi haldið til við landamærin og á Krímskaganum, sem Rússland hertók árið 2014, undanfarnar vikur.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fagnaði tilskipun varnarmálaráðherrans í dag á Twitter. Hann hafði skorað á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að funda með sér á átakasvæðinu til þess að reyna að leysa úr stöðunni.
Fjöldi ríkja, þar á meðal Bandaríkin, Frakkland og Þýskaland hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins við Úkraínsku landamærin á Rússlandi. Bandarískar hersveitir í Evrópu hafa verið í viðbragðsstöðu vegna ástandsins undanfarnar vikur og hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti lofað Zelensky stuðningi Bandaríkjanna ef til átaka komi.
Þá hafði Atlantshafsbandalagið, NATO, einnig lýst yfir áhyggjum og hefur kallað til fundar í Júní vegna ástandsins.
Rússar hafa hins vegar haldið því fram að hernaðarviðveran tengist æfingum vegna „ógnandi tilburða“ NATO. Þá hafa yfirvöld í Rússlandi lýst því yfir að þau hyggist loka fyrir skipaumferð á svæðum í Svartahafinu sem gæti haft gífurleg áhrif á hafnarborgir í Úkraínu.