Síðasta spurningin sem var lögð fyrir þá Teit og Hermann Hauksson í Domino's Körfuboltakvöldi í gær var hvort eitthvað lið gæti stöðvað deildarmeistara Keflavíkur.
Báðir eru á því að Keflvíkingar séu langsigurstranglegastir í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
„Mér finnst yfirburðir Keflavíkur gríðarlegir. Þeir eru með svo svakalega sterkt byrjunarlið og fá gæja inn af bekknum sem koma með sprengjur og spútnik og halda tempói. Í gær [í fyrradag] tóku þeir Tindastól sannfærandi án Harðar Axels [Vilhjálmssonar] sem sýndi mér enn meira hversu sterkir þeir eru. Í augnablikinu sé ég ekkert lið skáka þeim,“ sagði Hermann.
Teitur tók undir með Hermanni en útilokar þó ekki að Valsmenn geti strítt Keflvíkingum.
„Ég er sammála þessu. KR átti ljómandi leik um daginn í Keflavík þar sem Keflvíkingar sýndu styrk sinn og líka á Sauðárkróki. Ég held að Valur sé eina liðið sem henti gegn Keflavík því þeir spila svo hægan bolta sem hentar Val. Og Valur er með kíló og sentímetra gegn þessum stóru strákum,“ sagði Teitur.
Framlenginguna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.