Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fjallaði um málið á upplýsingafundi almannavarna í dag. 124 þúsund einstaklingar hafa fengið einn skammt af bóluefni.
Þessi staða breytir engu í daglegu lífi hinna bólusettu, segir Þórólfur, sem vill ekki skipta samfélaginu í tvennt og veita þeim sérréttindi sem hafa fengið sprautu. Vissulega losnar fólk þó við áhættuna á smiti eða alltént alvarlegum veikindum.
„Fólk þarf bara að hegða sér eins og það hefur gert. Þetta er ekkert nýr heimur. Fólk þarf að passa sig áfram þar til við erum búin að ná betra samfélagslegu ónæmi og við förum að slaka á,“ segir sóttvarnalæknir í samtali við Vísi.
Sjálfur breytti hann engu í hegðun sinni eftir að hann fékk fyrstu sprautuna af AstraZeneca.
„Ég er öruggari eftir einn skammt og enn frekar þegar ég hef fengið skammt númer tvö en ég mun þurfa að hegða mér nákvæmlega eins og ég hef gert fram að þessu. Ég ætla ekki að fara að slaka á sóttvarnaráðstöfunum. Síður en svo,“ segir Þórólfur.
Aflétta sem víðast
Sóttvarnaráðstafanir eiga að taka breytingum innanlands 13. maí, næsta fimmtudag. Þórólfur hefur sagt að þar komi að líkindum til tilslakana ef fjöldi smita næstu daga verður áfram eins óverulegur og verið hefur á allra síðustu dögum.
Flest svið samfélagsins fá að starfa um þessar mundir, en með tilslökunum. Þórólfur segir því að þrýstingurinn frá ólíkum hópum um opnun hér og þar hafi verið hlutfallslega lítill frá síðustu afléttingum.
„Það hefur verið tiltölulega rólegt í því undanfarið miðað við oft áður. Ég sé ekki neitt knýjandi hvar afléttingar ættu helst að vera. Það er hvergi lokað, en takmarkanir alls staðar. Ég held að við hljótum að líta til þess að aflétta bara sem víðast, eins og við höfum verið að gera fram að þessu.“
Hæ, hó og jibbí jeí
Samkvæmt afléttingaáætlun stjórnvalda í sóttvarnaaðgerðum, á öllum takmörkunum innanlands að vera aflétt í seinni „síðari hluta júní“, enda verði 75% þá komin með alla vega fyrri sprautu.
Svo vill til að innan þessa ramma fellur 17. júní, þar sem hefð er fyrir að margir safnist saman. Þórólfur segir þó að ekkert bendi frekar til að þá verði hægt að aflétta einu eða öðru.
„Ég hef alltaf sagt að stjórnvöld eru með sína áætlun og ég fagna því. En það er ekki það sem ég er að horfa á, ég er að horfa á stöðuna í faraldrinum og kem með tillögur í samræmi við það. Ég er ekkert endilega sjálfur farinn að hugsa um 17. júní sérstaklega,“ segir sóttvarnalæknir.