Þetta kemur fram í ályktun sem send var út eftir fund sóknarnefndar Hallgrímssóknar þriðjudaginn 11. maí 2021 og var samhljóða samþykkt eftir fund.
Sóknarnefndin harmar að Hörður Áskelsson, organisti kirkjunnar, skuli hafa óskað eftir starfslokasamningi í stað þess að gera heiðurslaunasamning við kirkjuna sem honum stóð til boða.“
Ólga í Hallgrímskirkju
Vísir hefur fjallað um þá ólgu sem er innan kirkjunnar vegna brotthvarfs Harðar en víst er að mörgum tónelskum og kirkjuræknum er brugðið vegna þess hvernig mál hafa þróast. Og hafa kórfélagar í Mótettukórnum verið ómyrkir í máli og fordæmt það að ferli Harðar sé nú lokið; en með honum fer kórinn úr kirkjunni.
Ekki hefur komið fram nákvæmlega hverjar kröfur Harðar voru en þó liggur fyrir að hann hefur ekki talið heiðurslaunasamninginn ásættanlegan en sá samningur hefði falið í sér „starfsaðstöðu og fjármuni fyrir Hörð til þess að vinna með kórum í Hallgrímskirkju að þremur stórverkefnum auk annarra viðfangsefna næstu tvö ár,“ eins og segir í ályktuninni.
Björn Steinar organisti tekur við
Hörður kveður Hallgrímskirkju frá og með 1. júní næstkomandi ásamt Mótettukórnum, sem hefur kennt sig við Hallgrímskirkju sem og Schola cantorum. Í ályktuninni er Herði þökkuð áratuga störf sem hafa auðgað tónlistarlíf kirkju og þjóðar og skilað mikilvægum tónlistararfi, eins og segir: „Félögum í kórunum tveimur er þakkaður fagur söngur í helgihaldinu, á tónleikum og þátttaka í lífi kirkjunnar.“
Þá kemur fram að sóknarnefnd samþykki að Björn Steinar Sólbergsson organisti leiði tónlistarstarf í Hallgrímskirkju. Björn Steinar er heimamaður í Hallgrímskirkju, eftirsóttur konsertorganisti hér heima og erlendis og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar.“