Þúsundir palestínskra múslima voru saman komnir í al-Aqsa moskunni í Jerúsalem í gær til þess að biðja saman föstudagsbænir og fagna nýsamþykktu vopnahléi. Þrátt fyrir þetta virðist umrætt vopnahlé ætla að standa, eftir ellefu daga átök milli þjóðanna.
Fréttamaður CNN, sem var á staðnum, sagði í gær að tugir ísraelskra hermanna hafi barið fréttamenn með kylfum og gert tilraunir til þess að ota að þeim rifflum. Þeir hafi kallað fréttamennina „lygara“ þegar þeir sýndu þeim fréttamannaskírteini sín.
Öryggissveitir bar að garði þegar Palestínumennirnir sátu við bænir fyrir íbúum Gasa og austurhluta Jerúsalem, þar sem fjöldi Palestínskra fjölskyldna á von á að missa heimili sín.
Talsmaður ísraelsku lögreglunnar sagði í yfirlýsingu í gær að öryggissveitirnar hafi verið að bregðast við óeirðum hundruð ungra Palestínumanna, sem hafi meðal annars kastað steinum að lögreglumönnum.
Fréttamaður CNN sagðist ekki kannast við það en að hann hafi orðið vitni að fólki, þar á meðal börnum, flýja staðin á meðan blossasprengjum rigndi yfir. Rauði hálfmáninn í Palestínu greindi frá því í gær að tuttugu hafi særst fyrir utan moskuna. Tveir hafi verið fluttir á spítala en aðrir hafi fengið aðstoð á staðnum.
Frá því að átökin hófust fyrir tæpum tveimur vikum síðan hafa 250 farist, flestir í Gasa, og meira en 100 þúsund þurft að flýja heimili sín á svæðinu. Unicef hefur varað við því að nærri 800 þúsund manns á svæðinu hafi ekki aðgengi að hreinu drykkjarvatni.