Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, í samtali við Vísi. Framboðslistar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum voru kynntir í gær. Þingkonurnar Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir munu leiða listana en Benedikt hafði sóst eftir oddvitasæti á Suðvesturhorninu. Þorgerður Katrín leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum fyrir komandi kosningar.

Benedikt segir í færslu sem hann birti á Facebook fyrir stuttu að hann hafi ekki hafnað 2. sæti á lista flokksins. Honum hafi boðist annað sæti síðastliðinn mánudag en hafi farið fram á að þeir sem hafi komið fram við hann með „óviðurkvæmilegum hætti,“ með því að hafa boðið honum neðsta sætið, bæðu hann afsökunar.
„Ég tók fram að þetta væri einungis til þess að ljúka þessum málum af minni hálfu og leggja grunn að góðu samstarfi. Ég myndi ekki gera þær afsakanir opinberar. Þorgerður svaraði eftir umhugsun að slík persónuleg afsökunarbeiðni væri ekki í boði,“ skrifar Benedikt en Þorgerður sagði í samtali við Vísi að samstarf hennar og Benedikts hafi ávallt verið gott.
„Ég átti ýmist samtöl við formann flokksins, en við vorum sammála um að öll okkar samskipti væru trúnaðarmál. Ástæða þess að ég tala nú um þessi mál er að Þorgerður kýs að ræða þau opinberlega.“
Benedikt greindi frá því í síðustu viku að honum hafi boðist heiðurssæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Hann sagðist hafa afþakkað það „af augljósum ástæðum“ og kvaðst hann ósáttur með að ekki hafi verið efnt til prófkjörs en uppstillinganefnd sá um að raða upp á listana.
„Benedikt var boðið heiðurssæti á þessum lista og honum var greint frá því með einhverjum fyrirvara. Eftir að þetta lá ljóst fyrir bauð uppstillinganefndin honum að vera í öðru sæti, og við skulum hafa það í huga að það eru sterkir þingmenn þarna líka,“ segir Þorgerður.
„Benedikt var boðið annað sætið áður en hún lauk störfum sem hann afþakkaði.“
Hún segir að litið sé á annað sætið sem baráttusæti í Reykjavíkurkjördæmunum.
„Já, við stefnum að því. Við stefnum að því að tveimur til þremur þingmönnum í öllum kjördæmum á Suðvesturhorninu.“
Benedikt gagnrýndi það að ekki hafi verið efnt til prófkjörs þar sem fjöldi fólks sóttist eftir oddvitasæti á listum flokksins.
„Uppstillingar hafa alltaf verið meginregla hjá flokknum frá upphafi og eru reyndar meginregla í samþykktum flokksins, sem að stofnendur hans ákváðu á sínum tíma,“ segir Þorgerður í samtali við fréttastofu.
Landshlutaráð flokksins í Reykjavík, sem telur um 70 manns, ákvað að raðað væri á lista flokksins í kjördæmunum með uppstillingum. Um 90 prósent ráðsmanna voru sammála því og í kjölfarið var efnt til tilnefninga í uppstillinganefnd.
„Eftir að sá listi lá fyrir var hann borinn upp, samþykktur og þá fór nefndin að vinna þetta erfiða verkefni. Hvert skref hefur verið tekið með samþykktum grasrótarinnar,“ segir Þorgerður.