Samkvæmt spánni munu til dæmis löndin Bandaríkin, Írland, Japan og Noregur endurheimta sama efnahagsstyrk og fyrir faraldurinn á næstu mánuðum. Ísland á hins vegar ekki að ná þeim áfanga fyrr en eftir rúm tvö ár, á þriðja ársfjórðungi ársins 2023.

Í skýrslunni segir að þegar atvinnuúrræðum stjórnvalda ljúki eftir sumarið sé gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 8 prósent en það eigi eftir að minnka niður í 7,6 prósent á næsta ári.
Það er gríðarlega mikið atvinnuleysi en til samanburðar við ríki sem eiga að ná aftur sömu vergu landsframleiðslu á mann á næstu mánuðum er aðeins spáð 4 prósent atvinnuleysi í Noregi á næsta ári og 4,3 prósent í Bandaríkjunum.
Verg landsframleiðsla á mann:
Verg landsframleiðsla (VLF) innifelur allar vörur og þjónustu sem framleidd er innan hvers ríkis árlega, að frádregnum þeim vörum sem notaðar eru við framleiðsluna. Hér er VLF deilt jafnt á alla íbúa landa.
Stjórnvöld beini aðgerðum að verst stöddu heimilunum
Í skýrslunni eru íslensk stjórnvöld þá hvött til að beina stuðningsaðgerðum sínum beint að þeim sem þurfa mest á þeim að halda, eins og heimilum sem eru illa stödd fjárhagslega.
Verg landsframleiðsla á Íslandi á síðan að aukast um 2,8 prósent í ár og 4,7 prósent árið 2022. Gert er ráð fyrir að ferðaþjónustan fari að taka við sér á næstu mánuðum og að sjávarútvegurinn haldi áfram að skila inn tekjum. Þá er gert ráð fyrir að útgjöld heimilanna eigi eftir að aukast á næstu mánuðum.
Sömu vergu landsframleiðslu og þekktist fyrir faraldurinn verður þó ekki náð fyrr en á síðari hluta þarnæsta árs.