Það var gaman að koma í garðinn hjá Ragnhildi Birnu í Litlagerði 8 á Hvolsvelli og sjá hana og fólkið hennar, börn, tengdabörn, barnabörn og vini og vandamenn í þjóðbúningunum, sem hún hefur saumað frá 2016. Hópurinn klæddist að sjálfsögðu þessum fötum á 17. júní hátíðarhöldunum á Hvolsvelli, auk þess að nota þau í hvert sinn, sem tækifæri gest.
„Þetta er bara áhugamál hjá mér og veitir mér hugarró að sitja og sauma og svo bara ánægjan að skapa eitthvað fallegt,“ segir Ragnhildur af sinni einskærri hógværð.

Anton Kári Halldórsson, einn af tengdasonum hennar á búning eftir Ragnhildi.
„Ég er gríðarlega stoltur af henni, þetta er frábært framtak, sem við njótum náttúrulega góðs af. Ég styð hana heilshugar í þessu og við nýtum hvert tækifæri til að klæða okkur upp á.“
Barnabörn og frændsystkinin eru líka mjög ánægð með búningana sína.
„Þetta eru þjóðbúningar, sem Íslendingar voru í í gamla daga frá Víkingaöld til 1900 og eitthvað,“ segir Böðvar Snær Jóhannsson, einn af strákunum, sem á búning frá Ragnhildi.
