Í óbirtu minnisblaði frá Evrópusambandinu, sem breski miðillinn The Guardian segist hafa lesið, er yfirráðum Bretlands á sjónvarpsmarkaðinum lýst sem ógn við menningarfjölbreytni Evrópusambandsríkjanna.
Samkvæmt núverandi reglum sambandsins verður allavega þrjátíu prósent af því efni sem sjónvarpsstöðvar aðildarríkjanna sýna að vera evrópskt. Sum ríki hafa tekið þetta enn lengra, til dæmis Frakkland en þar verður sextíu prósent sjónvarpsefnis að vera evrópskt.
Breskt efni flokkast auðvitað sem evrópskt í þessu kvótakerfi en Evrópusambandið hefur nú áhyggjur af því að langstærstur hluti þess evrópska efnis sem aðildarríkin sýna sé breskt.
Það ógni stöðu kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar annarra evrópskra ríkja, sérstaklega þeirra sem eru smærri og með tungumál sem færri tala.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú verið falið að greina hættuna sem steðjar að menningarfjölbreytni aðildarríkjanna vegna bresks sjónvarpsefnis. Heimildir The Guardian herma að þetta sé fyrsta skref sambandsins í því að draga úr hlut breskra sjónvarpsframleiðenda á mörkuðum sínum.