Deildarmeistarar Keflavíkur taka á móti Þór úr Þorlákshöfn í þriðja úrslitaleik félaganna í kvöld. Þórsliðið hefur unnið tvo fyrstu leikina og vantar því aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Blue-höll þeirra Keflvíkinga hefur stundum gengið undir nafninu Sláturhúsið. Þar höfðu heimamenn ekki tapað í 509 daga og unnið átján leiki í röð fyrir tapið í leik eitt. Þeim var hins vegar slátrað í leik eitt og holan varð enn dýpri eftir tap í Þorlákshöfn.
Það bíða því margir spenntir eftir viðbrögðum Keflvíkinga í kvöld. Getur svo farið að liðið sem vann sex fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni verði sópað í sumarfrí?
Þórsarar hafa aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn en þeir léku fyrst í úrvalsdeildinni árið 2003.
Þrjú félög hafa unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í Keflavík en það eru auk heimamanna lið Grindavíkur og lið Snæfells.

Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið eftir 89-72 sigur á KR í íþróttahúsinu við Sunnubraut 22. mars 1989. Keflavík vann úrslitaeinvígið 2-1.
Grindavík varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið eftir 96-73 sigur á Keflavík í íþróttahúsinu við Sunnubraut 11. apríl 1996. Grindavík vann úrslitaeinvígið 4-2.
Snæfell varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið eftir 105-69 sigur á Keflavík í íþróttahúsinu við Sunnubraut 29. apríl 2010. Snæfell vann úrslitaeinvígið 3-2.
Þetta eru einmitt þrír nýjustu félögin til að bætast í Íslandsmeistarahópinn en á undan þeim unnu Haukarnir sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil líka í Reykjanesbæ árið 1988. Hafnarfjarðarliðið vann þá framlengdan oddaleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Leikurinn á milli Keflavíkur og Þórs í kvöld hefst klukkan 20.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphtiun Domino's Körfuboltakvölds hefst klukkan 19.30 og eftir leikinn verður hann gerður upp á sömu rás, Stöð 2 Sport.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.