Solid Clouds þróar tæknigrunn sem má nota til framleiðslu fjölspilunartölvuleikja og framleiðir eigin leiki. Í fyrra var fyrsti leikur félagsins gefinn út en hann ber heitið Starborne: Sovereign Space og er herkænskuleikur sem gerist í geimnum.
Útboðsgengi bréfanna verður 12,5 krónur og verða tvær áskriftaleiðir í boði fyrir fjárfesta; A- og B-leið. Þær eru ólíkar með tilliti til stærðar áskrifta en A-leiðin er í boði fyrir þá sem vilja fjárfesta fyrir 100 þúsund krónur til 15 milljóna en B-leiðin fyrir þá sem vilja fjárfesta fyrir hærri upphæðir.
Alls verða 40 milljónir hluta til sölu á hlutafjárútboðinu en félagið hefur heimild til að stækka útboðið um 18 milljónir hluta, að því er fram kemur í tilkynningu frá Arion banka. Samtals hefur það því heimild til að selja um 58 milljónir hluta.
Þeir sem eru með skattalegt heimilisfesti á Íslandi og fara í áskritarbók A fyrir að lágmarki 300 þúsund uppfylla skilyrði um frádrátt frá tekjuskatts- og/eða fjármagnstekjuskattsstofni sínum fyrir allt að 75 prósentum af fjárfestingunni. Það er þó að því gefnu að þeir eigi hlutabréfin að lágmarki í þrjú ár.
Tölvuleikurinn Starborne fór vel af stað en rétt um 400 þúsund manns frá 150 löndum hafa hlaðið honum niður. Solid Clouds var stofnað árið 2013 af Stefáni Gunnarssyni, Stefáni Björnssyni og Sigurði Arnljótssyni, fyrrum forstjóra CCP.
Næsti leikur fyrirtækisins á að koma út á næsta ári.