Þann 17. júní síðastliðinn opnaði sýningin ALL AROUND með hönnunarteyminu OBJECTIVE í Ásmundarsal. Sýningin stendur til 11. júlí en fimmtudaginn næsta verður listamannaspjall klukkan 17:30.
„Objective rannsakar mörk skúlptúrsins og leitast við að setja hann í nýtt samhengi með notkun líkamans sem efnivið. Leikur, húmor og líkamleiki eru lykilhugtök í aðferðafræði Objective og eru auðsjáanleg í gegnum allt hönnunarferlið ásamt niðurstöðu. Þessi hugtök skila sér ósjálfrátt í sýningarform teymisins, en oft er þörf á að virkja verkið með aðkomu líkamans á einhvern hátt og þar með fullgera verkið,“ segir um sýninguna.

Þverfaglega hönnunarteymið Objective samanstendur af Jónu Berglindi Stefánsdóttur textílhönnuði og Helgu Láru Halldórsdóttur fatahönnuði. Þær hafa starfað saman frá árinu 2018. En Jóna Berglind hefur meðal annars hannað fyrir IKEA.