Sakamálarannsókn er hafin á árekstrinum og hyggst lögreglan kæra konuna fyrir að hunsa öryggisreglur vísvitandi og að valda líkamstjóni.
Myndbönd af atvikinu hafa farið sem eldur í sinu um fjölmiðla og samfélagsmiðla um allan heim. Það átti sér stað þegar hjólreiðamennirnir brunuðu í gegnum Finistere-hérað í Bretagne á Norður-Frakklandi.
Konan virtist halla sér inn á veginn og í veg fyrir Tony Martin, þýskan keppanda, þannig að hann rakst á skiltið sem hún hélt á og féll í jörðina. Fjöldi keppinauta hans féll í öngþveitinu í kjölfarið.
Á skiltinu stóð „afi og amma“ á þýsku. Konan horfði í áttina frá hjólreiðamönnunum og virtist ekki sjá þá nálgast, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Lögreglan segir að konan hafi flúið vettvang eftir áreksturinn.
Forsvarsmenn keppninnar segjast ætla að stefna konunni vegna árekstursins. Hvöttu þeir áhorfendur til þess að virða öryggi keppendanna og hætta ekki öllu til þess að taka mynd eða komast í sjónvarpið.