Svæðið sem bætist við þjóðgarðinn liggur norðan við jökulhettu Snæfellsjökuls og austan við núverandi þjóðgarðsmörk frá jökli að Búrfelli og nirður fyrir Dýjadalsvatn, að því er segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu. Flatarmál þjóðgarðsins stækkar um 9% með viðbótinni.
Míla og Síminn gáfu hluta landsins í Gufuskálum til þjóðgarðsins. Nýja svæðið nær meðal ananrs yfir Prestagötu, gamla þjóðleið.
Ráðherra mun á grundvelli reglugerðar um þjóðgarðinn skipa þjóðgarðsráð en það er í fyrsta skipti sem það er gert á grundvelli laga um náttúruvernd. Í þjóðgarðsráði munu eiga sæti fulltrúar sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, ferðaþjónustusamtaka á Snæfellsnesi og umhverfisverndarsamtaka.
Ráðið verður Umhverfisstofnun og þjóðgarðsverði til ráðgjafar í málefnum þjóðgarðsins, til dæmis um framkvæmdaáætlun, áherslur fyrir þjóðgarðinn, gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og önnur stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn. Þjóðgarðsráðið á einnig að stuðla að breiðari þátttöku hagaðila í mótun þjóðgarðsins.