Talibanar hafa á undanförnum vikum herjað af miklum krafti gegn stjórnarher Afganistans og lagt undir sig fjölmörg héruð í norðurhluta landsins. Á undanförnum dögum hafa vígamenn Talibana þar á meðal lagt undir sig héruð nærri Kabúl, höfuðborg landsins, og gert árásir á öryggissveitir í útjaðri borgarinnar.
Í samtali við blaðamenn í Afganistan í dag sagði Miller, sem stýrir brottflutningi hermanna Bandaríkjanna frá Afganistan, að stjórnarherinn ætti í verulegum erfiðleikum. Mórall væri ekki góður, þeir hefðu átt í hörðum bardögum lengi og oft án mikils stuðnings.
Í frétt Washington Post er haft eftir Miller að heilt yfir sé öryggisástandið í Afganistan ekki gott. Stjórnarherinn hefðu þurft að hörfa víða undan sókn Talibana og mannfall væri mikið. Umfangsmiklar árásir stæðu yfir á sama tíma og friðarviðræður eigi að fara fram milli Talibana og ríkisstjórnar Afganistans.
Margir vopnaðir hópar hafa komið stjórnarhernum til aðstoðar að undanförnu en samheldni þar á milli er þó lítil.
Miller sagðist óttast að mismunandi þjóðflokkar og vopnaðir hópar í Afganistan gætu farið að berjast sín á milli og borgarastyrjöld skylli á, eins og gerðist í kjölfar þess að Sovétríkin hættu innrás sinni í landið á síðustu öld. Þá náðu Talibanar völdum í Afganistan.
AP fréttaveitan segir forsvarsmenn hers Bandaríkjanna búast við því að herstöðin í Bagram, stærsta herstöð ríkisins í Afganistan, verði færð í hendur stjórnarhers Afganistans á næstu dögum. Það er sami staður og Sovétríkin voru með sína stærstu herstöð í Afganistan á árum áður.
Einn viðmælenda AP segir lokun Bagram vera stóran sigur fyrir Talibana. Bæði séu um raunverulegan sigur að ræða og táknrænan og muni Talibanar ná tökum á herstöðinni muni þeir geta notað þann árgangur í áróður til margra ára.