Síðustu helgi var öllum samkomutakmörkunum aflétt innanlands og hefur verið mikið fjör í miðbæ Reykjavíkur síðan. Fréttastofa gerði sér ferð í bæinn þegar klukkan var að slá í miðnætti á föstudagskvöldi og mátti sjá þéttar raðir fólk sem beið með eftirvæntingu eftir að komast inn á skemmtistaði.
Dyravörður á Prikinu segir ástandið í miðbænum brjálað eftir afléttingar innanlands.
„Hræðilegt. Það er ömurlegt.“
Hvernig þá?
„Mikið að gera. Allt of mikið að gera. Mörg slagsmál. Það er bara svoleiðis,“ sagði Sigurður, dyravörður á Prikinu.
Dyraverðir á Sólon og Bankastræti Club segja nóg um að vera.
„Síðasta helgi var vel pökkuð og mjög mikið að gera,“ sagði yfirdyravörður á Bankastræti Club.
„Búið að vera geðveiki. Hjá okkur allavegana,“ sagði Þorgeir, dyravörður á Sólon.
Næturlífið á Íslandi hefur haft þá sérstöðu í gegnum tíðina að fólk mætir seint á kvöldin niður í miðbæ og fer seint heim, ólíkt nágrannaþjóðum okkar þar sem hefð er fyrir því að byrja gamanið fyrr. Þetta breyttist á tímum samkomutakmarkanna þegar skemmtistaðir þurftu að loka fyrr á kvöldin en dyraverðir sem fréttastofa ræddi við sakna þess fyrirkomulags og myndu gjarnan vilja sjá fólk mæta fyrr út á lífið og fara fyrr heim.
„Ég vona það. Við vonum það, en það verður ekki svoleiðis,“ sagði Þorgeir.
Dyravörður á Prikinu tekur undir þetta. Hann saknar þess tíma þegar skemmtistaðir þurftu að loka fyrr vegna sóttvarnarreglna og myndi gjarnan vilja sjá skemmtistaði opna fyrr og loka fyrr á kvöldin.
„Já. Mér myndi finnast það þægilegra já,“ sagði Sigurður.