Sam Ingham, lögmaður Britney, hefur farið með málið frá árinu 2008 þegar faðir hennar fékk forræði yfir henni í kjölfar andlegra veikinda hennar. Síðan þá hefur Britney ítrekað reynt að fá föður sinn, Jamie Spears, sviptan forræði yfir sér en hann hefur farið með stjórn yfir fjár- og heilbrigðismálum hennar síðan árið 2008.
Samkvæmt frétt TMZ mun Ingham skila inn gögnunum sem hann hafði ekki skilað í dag og mun hætta störfum á morgun. Þar segir að Britney hafi í áraraðir barist fyrir sjálfstæði en hafi ekki fengið sjálfræði yfir sér að nýju vegna vanhæfni Inghams.
Page Six hefur eftir heimildarmanni að Britney hafi verið í áfalli eftir að hún komst að því að Ingham hafði ekki skilað inn tilskyldum gögnum. Aðeins tvær vikur eru liðnar síðan Britney bar vitni fyrir dómi og lýsti því hvernig forræði föður hennar, og annarra, yfir henni hafi eyðilagt líf hennar.
Til þess að Britney fái aftur sjálfræði verður lögmaður hennar að skila inn beiðni um að forræði yfir henni verði aflétt, sem Ingham hefur ekki gert. Þá hefur Ingham ítrekað hundsað fyrirspurnir fréttamiðla og aðdáenda Britney um hvers vegna hann sé ekki búin að skila inn beiðninni.
Greint var frá því í morgun að umboðsmaður Britney til 25 ára hafi einnig sagt af sér. Hann segir að Britney þarfnist sín ekki lengur þar sem hún fyrirhugi að hætta tónlistarferlinum. Þá greindi hann frá því í bréfi sem hann lagði fyrir dómstóla í LA að hann hafi ekki talað við Britney í um tvö ár og að hann hafi frétt af vilja hennar til að hætta í tónlist í gegn um annað fólk.