Fyrri leik Stjörnunnar og Bohemians á Samsung-vellinum í Garðabænum lyktaði með 1-1 jafntefli en Írarnir unnu seinni leikinn í gær, 3-0. Bohemian vann einvígið, 4-1 samanlagt, og mætir Dudelange frá Lúxemborg í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Eftir leikinn hrósuðu Írarnir Stjörnumönnum í hástert fyrir framkomu þeirra í einvíginu, og sérstaklega hvernig þeir skildu við búningsklefa sinn á Aviva vellinum í Dublin.
„Heppnin var ekki á bandi Stjörnunnar en þeir tóku óaðfinnanlega á móti okkur og skildu svona við búningsklefann sinn eftir leikinn,“ sagði á Twitter-síðu Bohemian. Með fylgdi mynd af tandurhreinum búningsklefanum.
Hard luck to @FCStjarnan who treated us impeccably well in Iceland and left their dressing room like this after the game pic.twitter.com/h9FnDvpyUv
— Bohemian Football Club (@bfcdublin) July 15, 2021
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Leiknismönnum í Breiðholtinu á mánudagskvöldið. Stjörnumenn eru í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar með þrettán stig eftir tólf leiki.