Engin olía hefur fundist í lögsögu Grænlands enn. Minnkun hafíss hafði þó leitt til vangavelta um að mögulega mætti finna ríkar auðlindir þar undir.
Grænlendingar höfðu bundið vonir við að geta notað tekjur af mögulegum olíu- og gaslindum til að tryggja sér sjálfstæði frá Danmörku.
Í samtali við Sermitsiaq segir Naaja H. Nathanielsen, ráðherra húsnæðismála, innviða, jarðefna og jafnræðis, að stærstu alþjóðlegu olíufyrirtækin hafi ekki sýnt áhuga á olíuleit við Grænlandsstrendur. Nú sé góður tími til að snúa taflinu á Grænlandi og byggja upp umhverfisvæna og sjálfbærar orkulausnir.
AP fréttaveitan vitnar í yfirlýsingu frá ríkisstjórn Grænlands þar sem segir að framtíðin liggi í endurnýjanlegum orkugjöfum og þar hafi Grænlendingar til mikils að vinna. Ríkisstjórnin vilji taka á sig hluta ábyrgðarinnar á því að berjast gegn veðurfarsbreytingum og hnattrænni hlýnun.
Ríkisstjórn Grænlands stöðvaði fyrr á þessu ári áætlanir um umdeilda námuvinnslu á Suður-Grænlandi.