Kínverjar takast nú á við mestu útbreiðslu veirunnar í marga mánuði en um þrjú hundruð manns hafa greinst í fimmtán héruðum landsins á undanförnum tíu dögum. Stjórnvöld hafa gripið til útgöngubanns víða og tekið upp skipulagðar skimanir á fólki.
Fólk er að greinast með Delta afbrigði veirunnar og segja stjórnvöld veiruna dreifa sér víða vegna þess að nú sé ferðamannatímabil innan Kína.
Nýja „bylgjan“ hófst í Nanjing en 9,2 milljónir íbúa borgarinnar hafa allir verið skimaðir að minnsta kosti þrisvar sinnum og þá hafa þeir sætt hörðum sóttvarnaaðgerðum.
Nú er hins vegar unnið að því að rekja smit sem hefur verið rakið til leikhúss í Zhangjiajie og verið að reyna að hafa uppi á um fimm þúsund manns sem sóttu sýningar þar. Talið er að um sé að ræða einstaklinga sem búa víðsvegar um Kína.