Fyrr í dag bárust fregnir af því að Talibanar hefðu myrt Dawa Khan Menapal, yfirmann upplýsingamála hjá ríkisstjórn Afganistans. Hann var skotinn til bana af hópi árásarmanna á vegi vestur af Kabúl, höfuðborg landsins.
Vitni sögðu TOLO News frá Afganistan að Menapal hafi verið að koma úr mosku eftir bænir og hefði líklegast verið á leið heim til sín.
Talsmaður Talibana staðfesti við AP fréttaveituna að þeir hefðu myrt Menapal. Það hefðu þeir gert í sérstakri árás og að markmiðið hafi verið að „refsa honum vegna gjörða hans“.
Fyrr í vikunni gerðu Talibanar árás á heimili varnarmálaráðherra landsins. Þá hétu þeir fleiri árásum á leiðtoga ríkisstjórnanarinnar.
Talibanar gerðu nýverið árásir á þrjár aðrar héraðshöfuðborgir í landinu. Það eru Kandahar, Herat og Lashkar Gah. Bardagar standa enn yfir en Talibanar eru sagðir hafa náð tökum á mestallri Lashkar Gah og þótti líklegt að það yrði fyrsta höfuðborgin til að falla í hendur þeirra.
Sjá einnig: Fyrsta borgin nærri því fallin í hendur Talibana
Fyrstu fregnir af falli Zaranj gefa til kynna að borgin hafi í raun gefist upp fyrir Talibönum eftir samningaviðræður við Talibana. Þær fregnir hafa þó ekki verið staðfestar enn. Reuters hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Zaranj að borgin hafi fallið vegna þess að liðsauki hafi ekki borist frá ríkisstjórninni í Kabúl.
Skömmu áður höfðu vígamenn tekið stjórn á fangelsi Nimruz, sem er nærri borginni, og sleppt þaðan vígamönnum sem búið var að handsama.