Skoðun

Megum engan tíma missa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Við verðum að stöðva hlýnun Jarðar. Það eru svo sem ekki neinar nýjar fréttir, en skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) rennir enn sterkari vísindalegum stoðum undir afleiðingar loftslagsbreytinga og alvarleika þeirra. Við megum engan tíma missa. Það er staðreynd. Það þarf að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda svo hlýnun jarðar stöðvist.

Ef horft er til núverandi markmiða sem ríki heims hafa sett fram, þá stefnir í að við náum ekki heildarmarkmiðum okkar sem mannkyn í samræmi við Parísarsamkomulagið. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að stíga stærri skref og hlaupa hraðar.

Þegar ég tók við sem umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir bráðum 4 árum hafði pólitískur doði ríkt í loftslagsmálum í of langan tíma. Nú hefur blaðinu hins vegar verið snúið við. Í upphafi þessa kjörtímabils setti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur markið á 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030, en það höfum við nýlega uppfært í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg, upp í 55%. Á næsta kjörtímabili þarf Ísland að ganga enn lengra að mínu mati. Um það munu kosningarnar í haust meðal annars snúast.

Við vitum um hvað málið snýst og við vitum hvað þarf að gera. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur í sinni tíð sett fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Þar eru settar fram 48 aðgerðir sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni bindingu kolefnis. Þessi aðgerðaáætlun mun taka sífelldum breytingum í takti við tækniframfarir og uppfærð markmið Íslands. Við höfum stóraukið mannauð í stjórnsýslu og eflt rannsóknir til muna. Þessar aðgerðir munu skila árangri á næstu árum og fleiri aðgerðir munu bætast við. Við vinnum nú einnig að stefnu um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum og sviðsmyndum fyrir kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Á Loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í Glasgow í nóvember verða þjóðarleiðtogar að taka sameiginlega stefnu í loftslagsmálum sem forðar mannkyni frá því að „kæfa plánetuna okkar og setja milljarða manna í hættu“, líkt og António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði í dag. Í Glasgow þurfa vísindin og ný skýrsla IPCC að vísa veginn og það mun ekki standa á mér verði ég enn þá fulltrúi Íslands á þessum vettvangi.

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×