Skoðun

Er þitt blóð verra en mitt?

Brynja Dan Gunnarsdóttir skrifar

Nú þegar hinsegin dagar ganga í garð er gott að líta aðeins í kringum sig og hugsa. Hugsa afhverju erum við enn að minna á rétt hinsegin fólks og baráttu þeirra? Hugsa hvað viljum við gera betur? Og hvar getum við gert betur?

Við höldum kannski að jafnréttið sé vel á veg komið á sem flestum stöðum hér á litla Íslandi, eða að minnsta kosti á mjög góðri leið þangað. En svo verður manni litið til reglna á borð við þær sem blóðbankinn hefur sett. Banki sem við vitum aldrei hvenær við, eða einhver nákominn okkur, gæti þurft á að halda. Bankinn sem bjargar lífum og við viljum að sé stútfullur og reiðubúinn þegar fólk þarf á að halda. Ég hef ekki mátt gefa blóð síðustu ár þar sem ég fæ mér af og til stöku flúr, en er alltaf á leiðinni eins og svo margir, því ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst nefnilega mikilvægt að við getum öll lagt okkar af mörkum.

Það er hins vegar þannig að bankinn gerir upp á milli blóðs. Ekki vegna litarháttar, ekki vegna trúar eða kyns heldur vegna kynhneigðar. Grunlaus um fordóma samfélagsins bárust mér fregnir af þessu fyrir stuttu síðan og hef ég eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þetta síðan.

Reglur bankans

Reglurnar eru þannig að karlmaður má ekki gefa blóð ef hann hefur stundað kynlíf með öðrum karlmanni, engu skiptir hvort þaðséu skyndikynni eða hann í sambúð. Þannig mega til dæmis tveir karlmenn sem eru par og búnir að vera lengi saman ekki gefa blóð. En kona sem hefur verið með mörgum mismunandi mönnum má hinsvegar gefa nokkra millilítra þegar henni sýnist, svo lengi sem enginn þeirra manna sem hún hefur verið með hafi á sinni ævi stundað kynlíf með öðrum manni. Nú veit ég ekki hvort fólk leggi það í vana sinn að spyrja bólfélaga sína að því en einhvernveginn hljómar það ólíklegt og þ.a.l regla sem erfitt er að framfylgja. Samkynhneigðir menn mega hinsvegar gefa líffæri eins einkennilega og það hljómar.

Tekið frá reglum blóðbankans: Þú mátt ekki gefa blóð ef þú:

  • Ert karlmaður sem hefur einhvern tímann haft kynmök við annan karlmann;
  • Konur: Hefur verið með einhverjum karlmanni sem hefur einhvern tímann haft kynmök við annan karlmann

Hver eru rökin?

Rökin að baki eru þau að karlmenn séu líklegri til þess að bera HIV á milli sín. Þetta kann að vera rétt staðreynd, en stenst sú staðreynd tímans tönn? Er tæknin ekki orðin betri en þetta? Vissulega voru samkynhneigðir menn líklegri til þess að smitast af HIV hér á árum áður og eru það enn. En líkurnar eru ekki sambærilegar þeim sem voru. HIV er ekki lengur sjúkdómur sem fólk getur ekki lifað með. Fólk lifir með honum eins og öðrum sjúkdómum. Allt blóð er skimað fyrir HIV sem og lifrabólgu og fleiru til þess einmitt að ganga úr skugga um að blóðið sé heilbrigt.

Í samtali mínu við hjúkrunarfræðing á göngudeild smitsjúkdóma kom einnig fram að flestir samkynhneigðir menn passa betur uppá kynheilsu sína en flestir aðrir. Margir eru á prep sem er fyrirbyggjandi lyf og á að minnka líkur á HIV smiti. Lítið er um nýjar greiningar á síðustu árum en fjölgun á skráðum einstaklingum er vegna þeirra sem flytja hingað. Þeir aðilar koma frá Bandaríkjunum, evrópu og allsstaðar að. Því hér er gott að vera, þegar þeir skrá sig í heilbrigðiskerfið okkar með þekkt smit er það flokkað sem “nýtt smit”.

Af þessum 300 virku smitum á Íslandi í dag eru samkynhneigðir menn ca þriðjungur þeirra. Það hlufall hefur hækkað, en aftur ekki vegna nýrra smita heldur vegna þess að Ísland er aðdráttarafl fyrir samkynhneigða menn í heiminum.

Bretland hefur afnumið þessa reglu og eins hafa önnur lönd í kringum okkur gert hið sama með einhverjum hætti, og sett þá tímamörk á skírlífi fyrir blóðgjöfina sem hægt er að rökræða endalaust hver eigi að vera og hvort þau eigi þá að ná yfir alla eða ekki.

Þá spyr ég: Hvar er jafnréttið? Ætlum við ekki að standa með fjölbreytileikanum alls staðar? Bara sumstaðar? Eru þetta kannski bara reglurnar því enginn hefur haft orð á þessu eða gleymst hefur verið að leiðrétta þær? Svo ég spyr aftur: Er ekki allt blóð skimað hvort sem er? Er samkynhneigt blóð verra en annað blóð? Er heilbrigt blóð ekki bara heilbrigt blóð eins og ást er ást?

Höfundur er í 2. sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×