Meðal leikarar sem hafa verið hér á landi eru Michelle Yeoh, Laurence O‘Fuarain og Sophie Brown.
Tökur á þáttunum hafa meðal annars farið fram á suðausturhluta landsins eins og Nauthúsagili og stendur einnig til að taka upp einhver atriði í Víkingaþorpinu sem reist var árið 2010 fyrir kvikmynd Baltasars Kormáks sem aldrei var framleidd.
Miðillinn Redainian Intelligence segir að tökurnar muni færast þangað á næstunni og birti myndir úr þorpinu sem sýna að undirbúningur fyrir tökur eigi að vera hafinn þar.
Menn, álfar og skrímsli
Fyrir þá sem ekki vita, þá gerast Witcher-bækurnar í söguheimi þar sem nokkrar víddir skullu saman. Við það strönduðu allskonar skrímsli, menn, dvergar, álfar og alls kyns verur saman í einum heimi með tilheyrandi deilum og átökum.
Witcher er nafn sérstakra stríðsmanna sem voru skapaðir til að fella ill skrímsli.
Blood Origin munu gerast um 1.200 árum fyrir sögur Sapkowski og fjalla um uppruna þessara stríðsmanna og það þegar víddirnar skullu saman.
Nokkurs konar víkingar
O‘Fuarain leikur mann sem mun vera frá Skellige-eyjum en íbúar þeirra í sögum Andrzej Sapkowski eru nokkurs konar blanda víkinga og Skota og gera má ráð fyrir að tökurnar í Víkingaþorpinu eigi að vera Skellige-þorp.
Declan De Barra, forsvarsmaður Blood Origin hefur verið duglegur við að birta myndir frá Íslandi. Nú um helgina birti hann myndir frá Jökulsárlóni og meðal annars eina þar sem hann sagði Ísland vera „klikkað“.
Hér að neðan má svo sjá fleiri færslur leikara frá Íslandi.