Cuomo hefur verið ríkisstjóri í þrjú kjörtímabil en eftir að Letitia James, ríkissaksóknari New York, opinberaði skýrsluna hefur þrýstingur gegn honum aukist verulega. Forsvarsmenn Demókrataflokksins á landsvísu og í New York sögðu hann eiga að segja af sér.
Þá stefndi jafnvel í að ríkisþingmenn New York myndu bola honum úr embætti.
Kathy Hochul tekur við sem ríkisstjóri, þegar Cuomo lætur af embætti eftir tvær vikur. Hún er 62 ára gömul, Demókrati og fyrrverandi þingkona. Þá er hún fyrsta konan til að sitja í embætti ríkisstjóra New York, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Hafnaði ásökunum
Cuomo er sakaður um að hafa þuklað á ellefu konum, kysst þær og faðmað gegn vilja þeirra auk þess að hafa uppi óviðeigandi ummæli. Skrifstofa ríkisstjórans hafi verið „eitraður vinnustaður“ þar sem áreitni var látin líðast.

Cuomo hafnaði mörgu af því sem hann var sakaður um. Hann sagði einhverjar ásakanir vera tilbúning og þvertók fyrir að hafa káfað á konum. Ríkisstjórinn viðurkenndi þó að hafa látið frá sér óviðeigandi ummæli og baðst afsökunar á því.
Sjá einnig: Hafnar því að hafa áreitt konur kynferðislega
Ríkisstjórinn naut mikillar athygli þegar Covid-19 herjaði hvað verst á íbúa New York og þótti hann í fyrstu standa sig mjög vel í embætti.
Vinsældir hans jukust til muna á landsvísu þegar hann tók sterka afstöðu með því að fólk væri með grímur, héldi sig heima færi eftir sóttvarnartillögum.
Fljótt kom þó í ljós að undir stjórn hans höfðu embættismenn hylmt yfir fjölda þeirra sem dóu á dvalarheimilum í ríkinu. Þá var hann sömuleiðis gagnrýndur harðlega fyrir að þvinga dvalarheimili til að taka við sjúklingum sem voru að jafna sig af Covid-19.
Það mál er til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Bók til rannsóknar
Einnig hafa saksóknarar í New York verið með nýja bók Cuomo til rannsóknar. Verið er að kanna hvort hann hafi brotið lög með því að láta opinbera starfsmenn sína hjálpa til við að skrifa bókina og auglýsa hana.
Útlit var fyrir að Cuomo myndi sjálfur hagnast um um fimm milljónir dala á bókinni.