„Þrátt fyrir að þetta séu frábær úrslit fyrir Víkinga þá eru kannski vondu fréttirnar Nikolaj Hansen sem þarf að fara meiddur af velli í fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur Benediktsson í Pepsi Max Stúkunni í gærkvöldi.
„Hann átti reyndar stóran þátt í sigrinum því hann lagði upp fyrsta markið,“ sagði Guðmundur og sýndi þegar Ásgeir Eyþórsson tæklaði Nikolaj Hansen út á miðjum velli.
„Þessi tækling hérna sem við sjáum strax á sjöttu mínútu. Hann jafnaði sig ekkert af þessu. Víkingarnir voru reiðir,“ sagði Guðmundur.
„Aldrei þessu vant,“ skaut Reynir Leósson og hélt síðan áfram: „Hann jafnar sig í smátíma og leggur upp fyrsta markið. Maður vonar Víkinga vegna að ef hann er ekki brotinn þá er hann að fara að spila næsta leik,“ sagði Reynir.
„Þá er þetta bara marin rist sem er ógeðslega vont en hann verður klár í næsta leik. Maður vonar að hann sé ekki brotinn á ristinni og verði klár í næsta leik,“ sagði Reynir.
„Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út,“ sagði Guðmundur undir myndum af Nikolaj Hansen haltra inn í klefa með mikinn vafning á fætinum. Það má sjá umræðuna úr Pepsi Max Stúkunni hér fyrir ofan.