Mótmæli gegn stjórnvöldum sem hafa verið áberandi í sumar virðasta hafa verið skipulögð á samfélagsmiðlum á netinu að miklu leyti. Nýju reglurnar gera það að glæp að hvetja til aðgerða sem „spilla allsherjarreglu“. Netþjónustufyrirtækjum er einnig gert að loka á þá sem eru taldir dreifa falsfréttum eða „skaða ímynd ríkisins“.
Yfirlýst rök stjórnvalda er að verja landsmenn fyrir „netglæpum“ og tryggja persónuupplýsingar þeirra, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ekki hefur verið greint frá hvaða refsing liggur við því að brjóta reglurnar.
José Miguel Vivanco, forstöðumaður Mannréttindavaktarinnar í Ameríkunum, segir að með reglunum hafi stjórnvöld á Kúbu hert tökin á netinu. Nú teljist það netöryggisglæpur að hafa áhrif á orðstír landsins.
Verstu efnahagsþrengingar í áratugi urðu kveikjan að stærstu mótmælum gegn stjórnvöldum í langan tíma. Efnahagur Kúbu hefur liðið fyrir hrun bandalagsríkisins Venesúela en einnig gríðarlega fækkun ferðamanna í kórónuveiruheimsfaraldrinum.