Samkvæmt niðurstöðu könnunar Maskínu fyrir fjölmiðlanefnd er yngra fólk mun líklegra en eldra til að segjast hafa upplifað hatursfull ummæli, einelti eða áreiti í umræðum eða athugasemdakerfum. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd, segir það mikið áhyggjuefni.
„Við erum á leiðinni núna inn í kosningar og þegar við sjáum það að við erum með mikið af haturstali og neteinelti og við sjáum það að það hefur áhrif á þátttöku fólks í umræðum á netinu,“ segir Skúli.
Þetta leiði til að fólk dragi sig til hlés í opinberri umræðu á netinu, tjái sig frekar um skoðanir sínar í lokuðum hópum eða hætti alfarið að tjá sig.
„Það verður til þess að einhverjir hópar eiga ekki lengur rödd í lýðræðislegri umræðu a netinu og það er ofboðslega vont þegar okkur vantar inn ákveðna hópa.“
Hann segir eldra fólk ekki virðast lenda eins illa í hatursorðræðu og það yngra.
„Elsti aldurshópurinn til dæmis í könnuninni, 60 ára og eldri, var ólíklegastur til að upplifa neteinelti, hatursfull ummæli eða háðung í umræðukerfum á meðan 15 til 17 ára var lang líklegastur,“ segir Skúli.
Bregðast þurfi við þessu með fræðslu.
„Mögulega er það af því að við höfum ekki verið að grípa í taumana, við höfum ekki verið með verkefni á sviði miðlalæsis, við höfum ekki verið að gera rannsóknir þannig að við höfum engan samanburð frá fyrri árum. Þannig að núna þurfum við í raun að fara að slökkva elda af því að við höfum ekki verið að gera neitt í þessum málum. Það vantar klárlega meiri fræðslu.“