Þetta er fyrsta sending heilbrigðisvara sem kemur til Afganistan frá því að Talibanar tóku þar völd fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Ástandið hefur farið síversnandi frá því að Talibanar tóku völd og var til að mynda gerð eldflaugaárás á Kabúl í morgun. Fréttastofa Reuters greinir frá.
„Eftir margra daga vinnu get ég glaður sagt að okkur hefur tekist að finna lausn á málinu og munum geta flutt nauðsynlegar byrgðir heilbrigðisvara til heilbrigðisstofnana í Afganistan. Við munum þá reyna að tryggja að heilbrigðisþjónusta geti haldið áfram,“ sagði Ahmed Al Mandhari, yfirmaður WHO í austurhluta Miðjarðarhafssvæðisins, í yfirlýsingu.
Stofnunin varaði við því á föstudag að heilbrigðisvörur væru af skornum skammti í Afganistan og nauðsynlegt væri að opna loftbrú að borginni Mazar-i-Sharif, í norðurhluta Afganistan, með hjálp pakistanskra stjórnvalda.
Vörurnar sem fluttar voru til Afganistan í dag eru nauðsynjavörur sem nýtast munu í almenna heilbrigðisþjónustu fyrir 200.000 manns auk þess að hægt verður að framkvæma skurðaðgerðir á 3.500 manns og veita 6.500 bráðaþjónustu.
Vörurnar verða fluttar á 40 heilbrigðisstofnanir í 29 héruðum um allt Afganistan.