Óbólusettir eru þannig 50 prósent líklegri en fullbólusettir til að greinast með svokallað „langvarandi Covid“. Það er greint þegar einkenni sjúkdómsins hafa varað lengur en fjórar vikur.
Jafnvel þótt fólk hafi upplifað væg einkenni Covid getur það glímt við afleiðingarnar í langan tíma.
Niðurstöðurnar byggja á upplýsingum sem safnað var með Zoe-rannsóknarsmáforritinu, þar sem notendur greina frá niðurstöðum skimana, greiningu, einkennum og bólusetningarstöðu.
Frá desember 2020 og fram í júlí á þessu ári voru gögn um 2 milljón einstaklinga skoðuð. 1,2 milljón hafði fengið einn skammt af bóluefni og 970.000 voru fullbólusettir.
Um 0,2 prósent fullbólusettra sögðust hafa greinst með Covid-19 eftir bólusetningu. Af 592 sem gáfu upplýsingar í meira en mánuð voru 5 prósent greindir með langvarandi Covid. Hlutfallið meðal óbólusettra var 11 prósent.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þeir sem voru líklegastir til að greinast með Covid-19 eftir bólusetningu voru „viðkvæmir“ hópar, til dæmis aldraðir.