Ragnar Axelsson ljósmyndari Vísis, betur þekktur sem RAX, flaug yfir Skaftá og Skaftárjökul í dag þar sem hann tók myndirnar og myndbandið sem sjá má hér í fréttinni. Þar má glögglega sjá kraftinn í hlaupinu.
Tómas Jóhannesson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að búist væri að hlaupvatnið gæti náð byggð síðla dags á morgun eða fimmtudagsmorgun. Ekki er þó talið líklegt að mannvirki séu í hættu, önnur en vegir sem liggja á svæðinu í grennd við Skaftá.

Eins og sést glögglega er töluvert rennsli í Skaftá en áætlað er að um 75 gígalítrar af hlaupvatni hafi komið fram við Sveinstind á fyrsta sólarhringi hlaupsins.
Mælieiningin gígalíter er teningur sem er 100 metrar á kant, eða það sama og ein milljón rúmmetra af vatni, eða einn milljarður lítra. Til samanburðar þarf um eitt þúsund rúmmetra af vatni til að fylla Laugardalsslaugina. Vegurinn í Skaftárdal er farinn í sundur eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

Fyrr í dag sýndi vatnshæðamælirinn við Eldvatn rennsli upp á rúma 560m3/sek. Það sama gildir um rennsli við Sveinstind sem mælist áfram rétt undir 1.500m3/sek.
Mælingar gefa til kynna að heildarrúmmál eystri ketilsins hafi verið um 260 gígalítrar áður en hljóp úr honum. Það má því áætla að aðeins um 1/3 heildarrúmmáls hlaupvatnsins sé nú þegar kominn fram við Sveinstind.

Hámarksrennsli við Sveinstind er lægra en í síðustu hlaupum úr eystri katlinum svo ætla má að núverandi hlaup komi til með að vara lengur. Hlaup sem varir lengur, ásamt hárri vatnsstöðu í upphafi hlaups, getur orsakað meiri útbreiðslu hlaupvatns í byggð, að því er segir í færslu á vef Veðurstofunnar.
Mesti hamagangurinn í dag var við brýrnar yfir í Skaftárdal, efstu jörðina í Skaftártungu, þar sem flætt hefur yfir veginn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.


