Skjalið, sem er sextán blaðsíður, sýnir að mennirnir voru í samskiptum við aðra Sáda í Bandaríkjunum en AP fréttaveitan segir það ekki sanna aðkomu embættismanna frá Sádi-Arabíu að hryðjuverkunum, eins og fjölskyldur fórnarlamba hafa haldið fram.
Um er að ræða samantekt á yfirheyrslu yfir manni sem var í samskiptum við Sáda í Bandaríkjunum, menn sem veittu hryðjuverkamönnunum aðstoð í aðdraganda árásanna.
Fimmtán af þeim nítján mönnum sem tóku þátt í árásunum voru frá Sádi-Arabíu og Osama bin Laden, fyrrverandi leiðtogi al-Qaeda var sömuleiðis þaðan.
Joe Biden, forseti, gaf fyrr í mánuðinum út forsetatilskipun um að svipta ætti skjöl FBI leyndar og var það að miklu leyti vegna pressu frá Bandaríkjaþingi og fjölskyldum fórnarlamba hryðjuverkanna sem stefnt hafa yfirvöldum í Sádi-Arabíu.
Sjá einnig: Leynd verður aflétt af rannsóknargögnum FBI
Ráðamenn í Sádi-Arabíu hafa ávallt þvertekið fyrir að þarlendir embættismenn hafi aðstoðar hryðjuverkamennina á nokkurn hátt og hafa stutt það að svipta gögn sem snúa að rannsókn FBI leynd.
AP hefur eftir lögmanni áðurnefndra fjölskylda sem hafa höfðað mál gegn Sádi-Arabíu að skjalið og önnur gögn sem hefur verið safnað sýni fram á að hryðjuverkamenn al-Qaeda hafi starfað innan Bandaríkjanna með vitneskju og stuðningi ríkisstjórnar Sádi-Arabíu.
Lögmaðurinn, sem heitir Jim Kreindler, sagði embættismenn hafa rætt við hryðjuverkamenn og hjálpað þeim við að koma sér fyrir í Bandaríkjunum og komast í flugskóla.
Starfsmenn FBI rannsökuðu á sínum tíma mögulega aðkomu embættismanna og annarra frá Sádi-Arabíu að hryðjuverkunum og þar á meðal menn sem áttu í samskiptum við hryðjuverkamennina. Engar beinar vísbendingar um aðkomu ríkisstjórnar konungsríkisins að árásunum hafa þó fundist.