Macron sagði þetta mikinn áfanga í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum í Sahel. Í tístum þar sem hann sagði frá dauða Sahrawi, tilgreindi hann ekki í hvaða landi hann hefði verið felldur.
Í frétt France24 segir að Sahrawi hafi verið felldur í drónaárás í ágúst.

Sahel-svæðið svokallaða er þurrt svæði suður af Shara-eyðimörkinni. Vígamönnum hefur vaxið ásmegin í Sahel á undanförnum árum og hafa hryðjuverkasamtök eins og al-Qaeda og Íslamska ríkið skotið þar niður rótum.
Frakkar hafa tekið virkan þátt í að berjast gegn þessum vígahópum. Macron tilkynnti þó í sumar að Frakkar myndu draga úr hernaðarumsvifum sínum á svæðinu á næstunni og að endingu fækka hermönnum sínum þar um helming.
Sjá einnig: Felldu alræmdan vígamann í Malí
ISIS-liðar í Sahel hafa verið sérstaklega virkir í ríkjum eins og Malí, Níger og Búrkína Fasó. Sahrawi er meðal annars sagður hafa gefið skipun um að sex franskir hjálparstarfsmenn yrðu myrtir í ágúst í fyrra.
Hann var áður meðlimur í al-Qaeda og leiddi hóp íslamista í Malí. Sá hópur rændi spænskum hjálparstarfsmönnum og erindrekum frá Alsír í Malí árið 2012.