Það var mikill erill í bláberjamóttökunni hjá Örnu í Bolungarvík þegar fréttastofa leit þar við síðla morguns í september. Arna hefur nú um árabil keypt ber af berjatínslufólki í lok sumars og byrjun hausts.
Úr berjunum er búin til bláberjasulta sem notuð er í haustjógúrt mjólkurvinnslunnar. Berjasprettan verið með besta móti fyrir vestan í ár og þau duglegustu geta haft hundruð þúsunda upp úr krafsinu.
Þegar móttakan er opin er tekið á móti berjum þrjá daga í viku. Berin hafa streymt inn til Örnu í haust - afkastamesti tínslumaðurinn skilar af sér um 150 kílóum í hvert sinn sem hann mætir, að sögn gæðastjóra.
„Við ætlum að taka semsé fjögur tonn en erum að taka sirka sjö til átta hundruð kíló á dag,“ segir Guðlaug Brynhildur Árnadóttir, gæðastjóri hjá Örnu.
„Hérna vigtum við þau, skoðum og förum yfir þau og við viljum náttúrulega bara svört, fersk ber.“
Þá einskorðast berjatínslan alls ekki við Bolungarvík heldur eru berin tínd víðsvegar á Vestfjörðum.
„Margir koma hingað vestur og eru að tína, í Ísafirði, Djúpinu og alls staðar þar sem þau mega tína,“ segir Guðlaug.
Þá sé berjatínslufólkið jafnmismunandi og það er margt.
„Íslendingar, útlendingar og mjög skemmtilegt fólk. Gott fólk.“