Þetta segir John Pettersson formaður Englanna, stuðningsmannaklúbbs knattspyrnufélagsins IFK Gautaborgar, í samtali við Aftonbladet í Svíþjóð.
Forráðamenn félagsins hafa ákveðið að styðja við bakið á Kolbeini og hafa sett upp langtímaáætlun sem felur í sér ríka kröfu um að hann vinni í sjálfum sér með stuðningi félagsins. Pettersson segist vonast til að félagið hafi þar tekið afstöðu stuðningsmanna með inn í myndina en hópur þeirra krafðist þess að samningi við Kolbein yrði rift.
Kolbeinn greiddi tveimur konum miskabætur eftir að hafa ráðist á þær á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur fyrir fjórum árum.
Önnur konan steig fram eftir að Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, greindi frá því að engin kynferðisbrotamál tengd leikmönnum karlalandsliðsins hefðu komið inn á borð sambandsins. Guðni sagði svo af sér, Kolbeinn var tekinn út úr landsliðshópnum og stjórn KSÍ steig sömuleiðis frá borði og boðaði til aukaþings.
Í yfirlýsingu Gautaborgar segir að atburðirnir á Íslandi hafi verið útkljáðir í lagalegum skilningi fyrir fjórum árum.
Vinni að því að færri menn hagi sér svona
Pettersson ræddi við Aftonbladet um þá stöðu sem upp er komin og að hans mati er ekki sjálfgefið að Kolbeinn fái að spila aftur fyrir Gautaborg.
„Aðalatriðið hérna er að Kolbeinn gangist við því að hann sé gerandi og að hann nýti það sem eftir er af sínum tíma sem opinber persóna til að vinna að því að færri menn muni í framtíðinni haga sér eins og hann viðurkennir að hafa gert. Það er aðalmálið. Það hvort Kolbeinn Sigþórsson verður áfram eða ekki í IFK Gautaborg er léttvægt í samanburði við það samfélagsvandamál sem kynbundið ofbeldi er,“ sagði Pettersson sem benti á að að hann væri að lýsa sinni skoðun, en ekki opinberri afstöðu stuðningsmanna Gautaborgar.
„Félagið ber ákveðnar skyldur sem vinnuveitandi Kolbeins en það er einnig með stærri skuldbindingu og hún er gagnvart meðlimum félagsins og stuðningsmönnum. Í þessu tilviki er ljóst að stórir hópar stuðningsmanna hafa sýnt í verki að þeir hafi ekki trú á leikmanninum, og það er eitthvað sem félagið verður að taka tillit til,“ sagði Pettersson.
Í yfirlýsingu Gautaborgar á þriðjudag kom fram að Kolbeinn hefði glímt við meiðsli og myndi samhliða því að vinna í sínum málum fara í aðgerð og jafna sig af meiðslum. Hann mun því ekki spila með liðinu á næstunni og kemur væntanlega ekki til greina í íslenska landsliðshópinn sem valinn verður í næstu viku, fyrir leiki í undankeppni HM 8. og 11. október.