Hann hefði skilið atkvæðin eftir í opnum kössum en læst herberginu sem þau voru geymd í. Þá hefur komið fram að starfsmenn hótelsins hafi haft aðgang að lyklum að herberginu og nú reynist erfitt að sannreyna það að enginn hafi komið nálægt atkvæðunum á meðan þau voru skilin eftir, áður en þau voru endurtalin um miðjan sunnudag.
Eins og hefur verið reifað í fréttum af málinu síðustu daga stendur skýrt í lögum að kjörgögnin verði að innsigla eftir talningu. En margir velta eflaust fyrir sér hvernig slík innsigli virka.
Vísir fékk myndband sem sýnir það á greinilegan hátt hvað gerist ef innsigli á kjörkassa er rofið. Myndbandið var tekið af starfsmanni sveitarfélags í Norðausturkjördæmi á síðasta mánudagsmorgun.
Hvítir stafir birtast á rofnu innsigli
Á því má sjá hvað gerist þegar innsiglið, sem lítur út eins og afskaplega venjulegt rautt límband, er tekið af yfirborði kjörkassans. Þess má geta að kassinn var ekki notaður í kosningunum, í honum voru ekki atkvæði og hann kominn í geymslu hjá sveitarfélaginu.
Þegar límbandið er tekið af birtast um leið á því hvítir stafir. Þeir hverfa svo ekki af þó límbandið sé fest aftur á kassann. Og þannig sést alltaf ef innsigli á kjörkassa hefur verið rofið.
Þetta má sjá hér að neðan: