Óskar Hafsteinn og kona hans, Margrét Steina Gunnarsdóttir búa í fallegri íbúð við Austurveg á Selfossi. Óskar varð 90 ára 23. september síðastliðinn en hann er fyrrverandi kennari og aðstoðarskólameistari Menntaskólans að Laugarvatni. Óskar er mjög duglegur að hreyfa sig, hann fer til dæmis í sund á hverjum degi, fer mikið á gönguskíði á veturna og stundar aðra útivist.
Æfingar hans í svefnherberginu vekja hins vegar hvað mesta athygli því þar fer hann nánast daglega og stendur á haus í nokkrar mínútur.
„Það er ekkert mál að standa á haus, mér finnst það ekkert merkilegt, enda hef ég gert þetta frá því að ég var strákur í Fagradal í Mýrdal, ásamt þremur öðrum strákum. Okkur þótti þetta svo merkilegt að þegar við heyrðum í bíl, þegar við vorum til dæmis að raka eða í einhverjum störfum, þá fleygðum við frá okkur hrífunni og stóðum á haus á meðan bílinn fór fram hjá. Og það gladdi okkur mjög þegar við heyrðum það þegar að fólk, sem hafði verið á ferð úr Reykjavík að það hafi verið að tala um það, „Hvernig er það með þessa stráka í Fagradal, standa þeir allan daginn á haus,““ segir Óskar Hafsteinn þegar hann rifjar upp sveitaárin í Fagradal.
Óskar segir það gera sér mjög gott að standa á haus.
„Já, ég tel það auka blóðstreymi um líkamann og maður hefur gott af þessu, þetta er góð hreyfing. Það er í mínum huga mjög mikilvægt fyrir eldra fólk að hreyfa sig eins og að ganga og synda eða hjóla, það er mjög nauðsynlegt.“
En hvað ætlar Óskar að standa á haus mörg ár í viðbót?
„Það er bara eftir því hvað mér verða gefin mörg ár, á meðan ég tóri þá held ég þessu við."
