Lögregla var kölluð til að American Bar á Austursetræti á níunda tímanum í gærkvöldi þar sem einn var handtekinn grunaður um líkamsárásar. Var viðkomandi handtekinn og vistaður í fangageymslum í þágu rannsóknar málsins. Tilkynnt var um aðra líkamsárás á ellefta tímanum í gærkvöldi en engar frekari upplýsingar um það mál er að fá að svo stöddu.
Þá var tilkynnt um tvenn hópslagsmál í miðbænum, annað á tólfta tímanum í gærkvöldi og hitt á öðrum tímanum í nótt en þá hafði hópurinn sundrast þegar lögregla kom á staðinn og enginn brotaþoli gaf sig á tal við lögreglu. Tilkynnt var svo um þriðju hópslagsmálin á þriðja tímanum í Hafnarfirði en sá hópur hafði einnig sundrast þegar lögregla kom á staðinn.
Talsvert var um ölvunarlæti í nótt og voru tíu ökumenn til að mynda stöðvaðir af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis- og/eða fíkniefna. Þá var tilkynnt um tvö rafskútuslys í nótt.
Unglingar beindu lazer að ökumönnum
Þá var tilkynnt um umferðarslys í miðbænum í gærkvöldi og var tjónvaldurinn handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Tilkynnt var um annað slys á öðrum tímanum í nótt og var sá einnig handtekinn og vistaður vegna gruns um ölvun.
Einn var handtekinn eftir að tilkynnt var að hann væri í annarlegu ástandi og ógnandi í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Sá hrækti, lamdi og sparkaði í lögreglubifreiðina og var loks handtekinn og vistaður þar til ástand hans batnar.
Þá var lögregla kölluð til í Kópavogi á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna unglingahóps sem var að beina lazer að ökumönnum. Lögregla mætti á staðinn og ræddi við unglingahópinn sem sagðist ekkert kannast við þennan verknað og var þá útskýrt fyrir krökkunum hve hættulegt þetta athæfi væri.