Fréttablaðið greindi frá því í morgun að nítján hafi leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vegna hópnauðgana það sem af er ári. Þrettán leituðu til móttökunnar árið 2020 og sex árið 2019. Haft er eftir Hrönn Stefánsdóttur, hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra á neyðarmóttökunni, að um sé að ræða ógnvænlega þróun.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta segir það alltaf koma á óvart þegar ofbeldi aukist. Á sama tíma hafi hins vegar umræða um kynferðisofbeldi opnast mikið síðustu misseri og því eðlilegt að fleiri leiti sér aðstoðar.
„Og síðan er það auðvitað líka annað sem getur verið að hafa áhrif og það er klámið og klámvæðingin. Við höfum verið að sjá talsvert mikil áhrif af kláminu í þeim ofbeldisbrotum sem koma hérna inn á Stígamót og í kláminu er ekkert óalgengt að sjá ofbeldisfullar hópsenur,“ segir Steinunn.
Gerendur geti talað sig saman
Um 20-25 þolendur hópnauðgunar leiti til Stígamóta á ári hverju en málin sem þangað koma séu þó yfirleitt ekki ný.
„Þetta er allt frá því að vera frelsissviptingar þar sem manneskja er yfirbuguð og það er hópur sem níðist á henni kynferðislega, jafnvel með byrlun, yfir í að þetta er maki eða kærasti sem býður allt í einu einhverjum öðrum inn í kynlífið og þar með breytist það úr kynlífi og í hópnauðgun,“ segir Steinunn.
Steinunn tekur undir það með Hrönn að það geti verið enn erfiðara fyrir þolendur hópnauðgana að tilkynna mál sín til lögreglu en aðra þolendur.
„Vegna þess að þar geta gerendurnir talað sig saman og verið sammála um vitnisburðinn. Og þannig höfum við auðvitað séð mál fara fyrir dómstóla þar sem þrír eða fjórir tala sig saman og það er náttúrulega mjög sterkt gegn einum vitnisburði brotaþola. Það virðist vera sem þolendur hópnauðgana eigi lítinn séns í réttarkerfinu okkar.“