Þetta er í þriðja sinn sem SpaceX skýtur geimförum til geimstöðvarinnar.
Þrír geimfaranna eru á vegum Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og einn á vegum Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA). Frá Bandaríkjunum eru þau Raja Chari, Tom Marshburn og Kayla Barron. Matthias Maurer verður á vegum ESA.
Þau taka með sér birgðir til geimstöðvarinnar og sömuleiðis rannsóknarbúnað sem þau munu nota á næstu mánuðum.
Meðal annars munu þau gera tilraunir varðandi áhrif matvæla á geimfara. Hvernig bæta megi ónæmiskerfi og garnaflóru í geimnum og hvort það hafi jákvæð áhrif á líkama geimfara. Geimferðir hafa veruleg áhrif á geimfara og er sífellt verið að leita leiða til að draga úr þeim.
Þau munu einnig framkvæma genarannsóknir og kanna leiðir til að draga úr vöðva- og beinarýrnun í geimnum með líkamsrækt.
Geimfarar um borð í geimstöðinni stunda líkamsrækt í um tvo og hálfan tíma á degi hverjum til að draga úr rýrnun. ESA er að leita leiða til að rafmagnsbylgjur á vöðva til að draga úr rýrnun. Til þess mun Maurer klæðast sérstökum búningi við líkamsrækt.
Áhöfnin mun einnig framkvæma viðhald á geimstöðinni og kanna að nýjar uppfærslur virki sem skyldi. Þar á meðal er nýtt klósett sem var nýverið komið fyrir í geimstöðinni.
Áætlað er að geimfararnir muni koma að rúmlega tvö hundruð verkefnum á næstu mánuðum.
NASA mun sýna frá geimskotinu á sunnudaginn á Youtube. Hægt er að nálgast útsendinguna hér að neðan.